Lánasjóður íslenskra námsmanna

Þriðjudaginn 15. apríl 1997, kl. 18:06:40 (5195)

1997-04-15 18:06:40# 121. lþ. 102.8 fundur 531. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (endurgreiðsla o.fl.) frv., ÞSverr
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur

[18:06]

Þóra Sverrisdóttir:

Herra forseti. Sem námsmaður stend ég upp til að fagna framkomnu frv. um Lánasjóð ísl. námsmanna. Það er ánægjulegt að sjá að endurgreiðslubyrðin mun verða lækkuð í 4,75%, en hún hefur verið allt að 7%, þar sem það gerir námsmönnum hægara um vik að koma undir sig fótunum eftir að námi er lokið. Einnig fagna ég því að námsmenn koma til með að losna við fjármagnskostnað þann sem þeir hafa borið þar sem námslán hafa verið greidd eftir á en samkvæmt frv. mun ríkissjóður veita styrki til nemenda sem á að dekka þann kostnað. Þó hefði ég allra helst viljað sjá að LÍN tæki upp samtímagreiðslur því með þessu fyrirkomulagi aukast ríkisútgjöld. Það er að sjálfsögðu ekki góður kostur og bankarnir halda sínum hlut. Einnig fagna ég því að loksins fær Iðnnemasamband Íslands fulltrúa í stjórn sjóðsins í stað áheyrnarfulltrúa.

Reglur sjóðsins hafa verið stífar varðandi frávik í námi vegna veikinda eða skipulags skóla. Nú á að verða breyting á því en ég tel nauðsynlegt að útfæra þau frávik nánar í lagatextanum. Að mínu áliti hefur því með þessu frv. verið komið nokkuð vel til móts við óskir nemenda varðandi Lánasjóð ísl. námsmanna og er það vel þó alltaf megi gott bæta.